

Venjulegur styrkur koldíoxíðs í lofti er 340 milljónhlutar. Það nægir ekki til að ná fram bestu hugsanlegu uppskeru. Plöntur þurfa yfirleitt koldíoxíðstyrk á milli 600 og 1000 milljónhluta. Aukið koldíoxíð er sérstaklega veigamikið þegar notast er við rafmagnslýsingu. Ef styrkur koldíoxíðs er látinn falla hægist á vextinum og þá er enginn ávinningur af lýsingunni.
Þegar viðbóðar koldíoxíði er bætt við loft í gróðurhúsi eykst uppskera af tómötum, gúrkum og salati um allt að 25–30%, jafnvel meira. Afskorin blóm og pottablóm njóta einnig góðs af koldíoxíðsgjöf. Koldíoxíð eykur ekki aðeins uppskeruna heldur flýtir einnig fyrir henni og bætir viðnám plantna gegn sjúkdómum og meindýrum.
Nellikur geta byrjað að blómstra allt að mánuði fyrr en ella. Salat er tilbúið til uppskeru mörgum vikum fyrr en venjulega en tómatar geta þroskast viku fyrr en ella. Koldíoxíðsgjöf borgar sig því augljóslega, eins og fjöldi rannsókna hefur sannað og reynslan leitt í ljós.
Í gróðurhúsum sem hituð eru upp með brennslu á própan myndast koldíoxíð sem aukaafurð af þeirri brennslu, en það gerist oft á röngum tíma sólarhringsins. Mesta koldíoxíðsþörfin skapast um hádegið, en þá er yfirleitt engin þörf á viðbótar upphitun. Hitakerfið þarf að geta geymt þennan hita og losað hann á svalari tímum dagsins. Hættan á ófullnægjandi brennslu er ævinlega fyrir hendi, en við hana myndast köfnunarefnisoxíð, NOX, sem er afar skaðlegt plöntum.
Ef hitakerfi í gróðurhúsi getur ekki geymt hita er yfirleitt besta lausnin að bæta hreinu koldíoxíði við loftið í gróðurhúsinu. Þetta er einnig gagnlegt til að forðast uppsöfnun raka sem fylgir própanbrennslu. Eitt kíló af própani myndar 1,6 kíló af vatnsgufu sem þéttist í fljótandi vatn. Vatnsmagn sem þetta hverfur ekki af sjálfu sér.